Í leikskólanum Borg er starfað samkvæmt lögum um leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011.
Í Borg er lögð áhersla á að leikur er námsleið barna og þau læra í gegnum leik. Borg vinnur eftir nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast, og leggur höfuðáherslu á að vinna með félagsfærni og sjálfseflingu. Við hvetjum foreldra til að kynna sér vef menntastefnunnar hér.
Leikurinn er einstakt tæki til náms samanber „það er leikur að læra". Leikurinn er starf og vinna barnanna og því nauðsynlegt að þau fái að upplifa hluti og atburði að eigin raun. Hann er tjáning þeirra og um leið undirbúningur undir fullorðinsárin. Því er lögð áhersla á að í gegnum leikinn öðlist börnin færni í félagstengslum, setja sig í spor annarra, sjálfstæðri hugsun og frumkvæði. Með því eykst orðaforði og færin í tjáningu.
Stefna okkar er að börnin fái gleði og ánægju út úr leikskólastarfinu og það verði þeim hvati og örvun til frekari náms/starfs í framtíðinni. Við trúum því að með því að efla félagsfærni barna og leggja góðan félagslegan grunn fleyti þeim langt áfram í lífinu og geri þeim kleift að láta drauma sína rætast - eins og nafn menntastefnu Reykjavíkurborgar segir.
Námsvið
Markmið:
- Að efla alhliða þroska barnsins.
- Unnið er með námsviðin í öllu starfi leikskólans.
- Hreyfing: Í hreyfistundum, garðinum, sal og gönguferðum.
- Málrækt: Í samverustundum, hópastarfi, samtölum, vali og hreyfistundum.
- Myndsköpun: Í listasmiðjum, heimastofum og hópastarfi.
- Tónlist: Í söngsal, hópastarfi, hreyfistundum, samverustundum og sal.
- Náttúra og umhverfi: Í útiveru, garðinum og gönguferðum.
- Menning og samfélag: Í samverustundum, hópastarfi og gönguferðum.
Hreyfing
Markmið:
- Að efla hreyfivirkni og hreyfigetu, hugtakaskilning, félagsþroska, einbeitingu, frumkvæði, hlustun og fara eftir einföldum reglum og fyrirmælum. Elstu börnin
fara í hreyfistundir í leikfimisal Breiðholtsskóla. Yngri börnin fara í
hreyfistundir í hópastarfi.
Einnig fara börnin í gönguferðir í hópastarfi og sumarvali um næsta nágrenni. Auk þess bíður útileiksvæði barnanna upp á mikla hreyfingu s.s. rólur, hjól, kastala og boltaleiki.
Málörvun
Markmið:
- Að efla málvitund barnanna.
Málrækt fer fram í öllu starfi innan leikskólans í formi samtala, sögustunda, söngstunda og nánast hvar og hvenær sem er.
Myndsköpun
Markmið:
- Að efla sjálfstæði og frumkvæði barnanna í skapandi starfi, auk þess að styrkja fínhreyfingar og lita- og formskyn barnanna.
Myndsköpun fer fram í listasmiðjum og inni á heimastofum. Leitast er við að börnin kynnist ólíkum efniviði og hafi aðgang að góðum litum og málningu og öðru sem til þarf.
Tónlist
Markmið:
- Að æfa sig að syngja í stórum hópi, hlusta, sitja kyrr, nota tákn með tali, hreyfa sig eftir/með tónlist, læra lög og texta, sjálfsstyrkingu og framkomu. Tilgangur með tónlist er að börnin læri og kynnist henni í öllum sínum fjölbreytileika.
Sungið er í söngsal árdegis alla föstudaga, ásamt daglegum söng inni á heimastofum. Öll börn leikskólans mæta í söngsal. Þar fer fram samsöngur, einsöngur, fluttir eru leikþættir og/eða farið með þulur.
Afmælissöngur er alltaf sunginn fyrir afmælisbörn vikunnar.
Börnin hlusta á sígilda tónlist í hvíld.
Náttúra og umhverfi
Markmið:
- Að efla umhverfisvitund og virðingu fyrir náttúrunni.
Börnin læra um dýr og plöntur t.d. í samverustundum, útiveru. Í gönguferðum læra þau á nánasta umhverfi sitt.
Menning og samfélag
Markmið:
- Að börnin kynnist fjölbreytileikanum í menningu og samfélagi fyrr og nú.
Börnin læra í gegnum bækur, sögur, tölvur og vettvangsferðir sem farnar eru á ýmsa menningarlega staði.
Leikurinn
Markmið:
- Að börnin fái sem fjölbreytilegastan efnivið til að vinna með og að hugmyndaflug þeirra fái notið sín.
Áhersla er lögð á leik barnanna, hvort sem hann er frjáls eða skipulagður, og að starfsfólk taki þátt í leikjum þeirra ef þörf krefur og kenni þeim nýja leiki. Leikurinn á sér stað m.a. í vali, frjálsum leik og útivist. Börnin fá að velja sér leiki og efnivið sem í boði er á valsvæðum og utandyra. Innlögn nýrra leikja á sér einnig stað á ofangreindum stöðum og í öllu dagskipulagi leikskólans.
Lífsleikni
Markmið:
- Að efla alhliða færni og sjálfsmynd barnanna.
Í Borg er unnið með lífsleikni í gegnum:
- leikinn, þar sem reynir á sjálfstæða hugsun og samskipi
- valið, í ákvörðunartöku og sjálfstæði
- samverustund, þar sem tjáning og umræða fer fram
- hópastarf, styrking félags- og samstarfshæfni, tillitsemi og umburðarlyndi
- „stig af stigi", þar sem unnið er markvisst með tilfinningar
Einnig er lögð áhersla á sjálfshjálp barnanna og að þau séu fær um að leysa deilur sem upp koma.
Hópastarf
Markmið:
- Að hópurinn vinni saman að verkefni, myndi góð tengsl, efli þekkingu og nái því besta úr hverjum einstaklingi.
Hóparnir eru aldursskiptir og fjöldi barna í hverjum hópi fer eftir árganginum hverju sinni. Sami hópstjóri (starfsmaður) fylgir hópnum allan veturinn. Unnið er árvisst með ákveðið grunnþema. Síðan er farið í umferðarfræðslu sem endar með heimsókn lögreglu í leikskólann. Eftir það er farið í þema sem ákveðið er ár hvert og grunnþemanu fléttað inn í það. Í þemavinnu er áhersla lögð á fínhreyfingar, framsögn o.fl. Vettvangsferðir geta verið tengdar hópastarfi.
Könnunarleikurinn
Markmið:
- Að efla skynjun, orðaforða og skilning barna í gegnum skynfærin fimm: snertingu, lykt, heyrn, bragð og sjón, ásamt hinu sjötta sem er hreyfing.
Í Borg er unnið með yngstu börnin, 1 – 2 ára í litlum hópum. Börnin fá ýmsa hversdagslega hluti og ílát ásamt „verðlausu" efni til að leika sér með (helst öll samskonar hluti) í ákveðinn tíma undir vökulum augum hópstjórans. Með þessum leik er m.a. stuðlað að útrás fyrir forvitni og sköpunargleði barnanna og eflir hann auk
þess einbeitingu þeirra og tiltekt er mikilvægur hluti af leiknum.