Leikskólinn Fálkaborg

introduktion på svenska
introdruction in english

Leikskólinn Fálkaborg er rekinn af Reykjavíkurborg. Leikskólinn sem stendur við Fálkabakka 9 í Reykjavík hóf starfsemi 1980.

Í leikskólanum dvelja 60 börn samtímis og eru þau á aldrinum frá eins árs til sex ára. Yngstu börnin eru á deild sem kölluð er Arnardeild en frá þriggja ára aldri eru börnin annað hvort á Ugludeild eða Fálkadeild. Leikskólinn er staðsettur í útjaðri Bakkahverfis, við leikskólann er óspillt náttúra og stutt að fara í Elliðaárdalinn.

Fyrsti leikskólastjóri Fálkaborgar var Gyða Sigvaldadóttir. Hennar lífsgildi eru í hávegum höfð í Fálkaborg, Gyða lagði alla tíð áherslu á að börn læri að njóta náttúrunnar, að þau búi við góð leikskilyrði þar sem þau fá notið sín í sjálfsprottnum leik, að þau læri sögur og ævintýr og að starfsfólk tali gott íslenskt mál.

Í anda Gyðu er leitast við að kenna börnum að lífríki náttúrunnar er viðkvæmt og að við verðum öll að leggja okkar á vogarskál náttúruverndar. Hollt mataræði og hreyfing eru mikilvægir þættir í uppeldisstarfi leikskólans.

Markmið í gönguferðum um nánasta umhverfi er einnig að auka þol og úthald barnanna. Þau ganga í þúfum, upp brekkur, njóta og styrkjast.

Hráefni til matargerðar er valið með tilliti til lífræns ræktunarmáta. Við höfum sem minnst af unninni matvöru og leitumst við að börnin fái hollan og hefðbundinn íslenskan mat.

Leikskólinn fékk Grænfánann í þriðja sinn sumarið 2010. Grænfáninn er veittur fyrir þátttöku í alþjóðlegu umhverfisverkefni sem stýrt er af Landvernd. Grænfáninn er tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu. Leikskólinn fær Grænfánann til tveggja ára í senn.

Til að halda Grænfánanum þarf áfram að vinna markvisst að umhverfismálum í leikskólanum og fá staðfestingu Landverndar á að það starf fullnægi kröfum sem gerðar eru til handhafa Grænfánans. Áþreifanlegasti þáttur verkefnisins í Fálkaborg er flokkun á rusli, jarðgerð á lífrænum úrgangi sem fellur til á leikskólanum og útikennsla.

Útikennsla þar sem börnin tileinka sér rannsóknaraðferðir byggja á því að þau fara aftur og aftur á sama stað í nánasta umhverfi leikskólans. Þar uppgötva þau, kanna, finna lausnir og læra að annast umhverfi sitt. Hlutverk hins fullorðna er að vekja undrun og forvitni og fræða börnin en fyrst og fremst að vera góð fyrirmynd. Góðar fyrirmyndir umgangast umhverfi sitt af alúð og með virðingu.

Leikskólinn hlaut viðurkenningu sem heilsuleikskóli vorið 2009. Samtök heilsuleikskóla veita viðurkenningu þeim leikskólum sem fylgja heilsustefnunni. Til þess að hljóta viðurkenningu sem heilsuleikskóli þarf leikskólinn að uppfylla ákveðin skilyrði um starf, aðbúnað og fæði.

 

Prenta | Netfang