Gleym mér ei

HLUTVERK HINS FULLORÐNA ER AÐ VEKJA UNDRUN OG FORVITNI BARNANNA Á UMHVERFI SÍNU

VIRKJUM ÁHUGA BARNANNA Á ÞVÍ SEM ÞAU SJÁ Í UMHVERFI SÍNU
TIL AÐ ÞROSKA MEÐ SÉR TILFINNINGU FYRIR UMHVERFINU ÞURFA BÖRNIN AÐ FÁ TÆKIFÆRI
TIL AÐ SKOÐA OG SKYNJA, UPPLIFA OG NJÓTA
 
Gleym mér ei - eru samtök leikskóla í Reykjavík sem hafa leyfi til að flagga Grænfánanum
og hafa sett sér sameiginleg markmið í umhverfismennt.
Leikskólarnir leggja áherslu á að börn og fullorðnir séu virkir þátttakendur
í sameiginlegum verkefnum og upplifunum.
Markmið leikskólanna er að börnin tileinki sér virðingu og umhyggju fyrir umhverfinu,
náttúrulegu sem og manngerðu, sem fylgir þeim áfram í lífinu.
Lagt er upp með að nýta bæði reynslu barnanna og þeirra fullorðnu í starfinu
og veita börnunum þannig tækifæri til að læra í samskiptum við fólk á öllum aldri.
 
UMHVERFISVERND
 • Lífrænn úrgangur er jarðgerður.
 • Pappír flokkaður og endurunninn í leikskólanum eða sendur í endurvinnslu.
 • Annað rusl flokkað og sent í endurvinnslu.
 • Rusli sem hent er í sorptunnur er haldið í lágmarki.
 • Fylgst með notkun á heitu og köldu vatni og rafmagni til að auka meðvitund um auðlindir jarðar.
 • Fylgst með umhverfinu og tínt burt rusl sem ekki á þar heima.
 
SKÓLAR Á GRÆNNI GREIN
- GRÆNFÁNINN
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum.
Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö.
Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda,kennara og annarra starfsmanna
skólans um umhverfismál.
Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða
og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.
 
MARKMIÐ VERKEFNISINS ER AÐ:
 • Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
 • Efla samfélagskennd innan skólans.
 • Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
 • Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
 • Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
 • Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
 • Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
 • www.landvernd.is
 
NÁM Í UMHVERFINU
Í Gleym mér ei leikskólunum er mikið lagt upp úr útiveru og vettvangsferðum þar sem lögð er áhersla
á að vekja áhuga barnanna á umhverfi sínu.
Börnunum eru gefin tækifæri til að upplifa og njóta þess sem náttúran býður upp á, skoða og skynja
á eigin forsendum.
Náttúran er einnig nýtt til ýmis konar leikja og tilrauna með margskonar efnivið.
Auk þess að rannsaka plöntur og dýr er fylgst með árstíðarbreytingum til að fræðast um gang lífsins.
 
GLEYM MÉR EI - LEIKSKÓLAR
Hver leikskóli er sjálfstæð eining sem starfar samkvæmt áherslum og aðstæðum hvers og eins.
Gleym mér ei er stærra lærdómssamfélag þar sem leikskólarnir sem það mynda
hafa sameiginlega fræðslu fyrir alla kennara sína. Þar læra kennarar saman og hver af öðrum.

Prenta | Netfang